Vúdú,

Meira um Ísland


VÚDÚ
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug


Ferðaheimur

Rómversk-katólsk trú á sér víða rætur á Karíbaeyjum. Samt sem áður eru margir íbúanna áhangendur vúdútrúarbragðanna. Voodoo (vodun, vaudou, wodu, voudou) er ekki til á prenti og er stundað á misjafnan hátt á hverjum stað. Auk aðalguðanna, sem eru dýrkaðir um allt land, eru persónulegir verndarandar, húsandar og náttúruandar. Ný goð og andar verða til við yfirnáttúrulega lífsreynslu, táknrænar draumfarir o.fl. Vúdútrúin er því ekki stöðug, heldur tekur stöðugum breytingum. Hún á rætur að rekja til fornra trúarbragða í Afríku. Nafnið er komið úr tungu fon-fólksins (Benin; áður Dahomey) og þýðir guð eða andi.

Vestur-afrísku trúarbrögðin mættu hinum kristnu og blönduðust þeim. Nýlenduherrarnir réttlættu þrælahaldið með því að skíra þrælana til kristinnar trúar, þeim til sáluhjálpar, en vanræktu fræðslu um trúna, sem þeir neyddu upp á þrælana. Þrælarnir voru ekki reiðubúnir til að segja skilið við trúararf sinn. Þess vegna urðu þessi tvenn trúarbrögð að nokkurs konar samsuðu.

Í vúdútrúnni er fjöldi mismikilvægra guða og anda, sem nefnir eru Loas (eint. Loa). Margir þeirra bera afrísk nöfn, s.s. Papa Legba, guð vegamóta, sem heldur leiðinni til himins opinni og ákalla verður í upphafi allra trúarathafna; Ogoun, stríðsguðinn; Agoué Taroyo, sjávarguðinn; Erzulie Fréda, daðrandi ástargyðjan. Aðrir guðir og andar bera frönsk nöfn. Guð dauðans, sem er hinn sami og djöfullinn í kristinni trú, heitir Baron Samedi. Ógnarforsetinn François Devalier var kallaður þessu nafni. Margir guðir vúdútrúarinnar eru sambærilegir mörgum kristnum dýrlingum. Erzulie Fréda líkist Maríu guðsmóður og er táknuð með gegnumboruðu hjarta. Ogoun líkist hl. Jakobi, Agoué Taroyo hl. Úlrik; þeir eru hlutgervðir í einhverju, s.s. fiski.

Aðalguðunum er skipt í fjóra flokka: Guði eða anda vatnsins, loftsins, eldsins og jarðarinnar. Margir þeirra eru hús-, verndar- og náttúruguðir eða andar, sem búa í trjám og steinum.

Vúdúguðirnir eru ekki yfirskilvitlegir. Þeir eru ákaflega mannlegir í eðli og útliti, kunna vel að meta góðan mat og drykk, verða ástfangnir, deila innbyrðis, eru metnaðargjarnir og sækjast eftir áhrifum og völdum o.fl. Tilgangur vúdú er að komast í samband við andana, sem bera boðin til guðanna og öðlast velþóknun þeirra.

Karl- og kvenprestar (Houngan og Mambo) annast trúarathafnirnar með aðstoð fjölda meðhjálpara: trumbuslagara, siðameistara, sérvígðum áhangendum auk manna og kvenna, sem hafa oft komizt í yfirnáttúrulegt ástand (Cheval) og virkað sem miðlar einhvers guðsins. Kjarni trúarathafnanna er dýrafórnir og særingar.

Athafnirnar fara fram í kofum, sem útbúnir eru sem hof (Hounfort), aðallega aðfararnætur sunnudaga. Það er dansað og sungið við takt heilagra trumbanna, sem tákna púls lífsins. Mikið er hrópað og kallað og bænasögl hljómar um allt. Dýrafórnirnar fara eftir eðli athafnanna, hanar, geitur, svín eða naut. Fórnardýrin eru færð guðunum á galdrateikningum (Vévé). Prestarnir teikna þessi dularfullu tákn með mjöli, ösku eða ryki að gólf hofsins. Þau tákna nærveru guðanna. Táknin og dýrafórnin eru ákall til guðsins um að opinbera sig. Vúdúiðkendur trúa því, að hver maður hafi nokkrar sálir og þær verði andar að loknu lífshlaupinu. Þessir andar geta tekið sér bólfestu í lifandi líkömum. Taki guðinn á móti fórninni með velþóknun slæst hann í hóp safnaðarins með því að setjast í líkama einhvers. Miðillinn (Cheval) fær alls konar kippi og krampaköst á meðan á trúardansinum stendur og hann eða hún grettir sig ógurlega og fettir. Þessar fettur og brettur eru tákn frá guðinum, sem lesa verður úr. Hægt er að leita ráða hjá guðinum á meðan hann er líkamnaður og biðja hann um spásagnir um framtíðina. Oft kemur guðinn ekki einn fram, heldur guðlegir keppinautar hans, sem setjast þá að í öðrum skrokkum safnaðarins samtímis.

Auk kven- og karlpresta eru líka töframenn (Bocor eða Gangan). þeir iðka svartagaldur. Útbreiddasta galdratrúin byggist á Loup-Garou og Zombi. Loup-Garou er maður, sem getur yfirgefið líkama sinn á nóttunni og sýgur blóð úr öðru fólki, einkum börnum.Sérstakar galdraathafnir lítilla og fárra hópa hafa einkum vakið athygli almennings, einkum sögur um hina lifandi dauðu (zombies; uppvakningar), sálarlausa líkamar sem eru dæmdir í þrældóm á jörðu. Töframenn með sérstakar gáfur geta komið fólki í dauðadá. Eftir að töframaðurinn hefur grafið viðkomandi, er hann grafinn upp aftur. Töframaðurinn gefur honum líf aftur en ekki viljann og skilninginn á ástandi sínu og notar hann sem þjón sinn við galdraathafnir eftirleiðis. Líklega er þetta fólk, sem hefur verið eyðilagt með eiturlyfjum og ráfar um í geðveiki og sljóleika.

Þrátt fyrir baráttu katólsku kirkjunnar og annarra kristinna trúarhópa gegn vúdú, hefur það engin áhrif haft á áhangendurna. Þeir eru ómenntaðir og fá þar skiljanlegar skýringar á ýmsum atburðum, sem gerast í þröngu lífsrými þeirra. Hver einstaklingur hefur sinn persónulega verndaranda, sem hann reynir af fremsta megni að halda í með fórnum. Verði hann fyrir einhverju óhappi, reynir hann ekki að leita eðlilegra skýringa, heldur álítur hann sig hafa vanrækt samband sitt við verndarandann, sem hefur reiðst eða móðgast. Einnig er mögulegt, að guðinn eða andinn hafi verið upptekinn við eitthvað annað. Þessi örlagatrú hefur á margan hátt neikvæð áhrif á eflingu atvinnu-lífsins. Fátækir, trúaðir bændur líta á erfið lífsskilyrði sín sem verk óhagstæðra guða og anda. Þeir reiða sig á að geta stýrt lífshlaupi sínu með trúarathöfnum og fórnum fremur en að beita heilbrigðri skynsemi og nota betri aðferðir við landbúnaðinn.

Eftir að ýmsar eyjar Karíbahafsins urðu sjálfstæðar, fluttu margir negrar aftur til Afríku og höfðu með sértrúarbrögðin,sem voru orðin fyrnd þar. Nú eru þar margir vúdútrúarhópar, t.d. eru í Togo 250.000 áhangendur (heildaríbúafjöldinn er 3 milljónir).

Vúdú er líklega bezta dæmið um samruna afrískra trúarbragða í Ameríku. Evrópumennirnir héldu, að þeir gætu fyrirbyggt samskipti með því að halda kynþáttunum aðskildum, en svo fór, að trúin varð hinn sterki þráður, sem tengdi þetta fólk í hinni ömurlegu ánauð.

Það byrjaði að aðhyllast fleiri guði en sína eigin og taka upp viðbótartrúarsiði þeim tengda. Á þessum þróunarferli blönduðust trúvenjur hinna margvíslegu kynþátta. Afleiðing þessarar deiglu varð sú, að hinir mörgu trúarhópar tóku upp nýja siði og sköpuðu nýja trú. Vúdú, sem er afrísk-karabísk trú á rætur að rekja til trúarsiða m.a. eftirfarandi kynþátta í Afríku: fon, nagó, ibo, Dahomea, Kongóa, Senegala, hússara, kapalóa, mondunga, mandinga, angólesa, Lýbíumanna, Eþýópa og malgaka.

Styrkurinn, sem trúin veitti Afríkumönnunum á Haítí, var svo mikill, að þeir lifðu ofsóknir Frakka gegn trúarbrögðum þeirra af. Þegar Frökkum varð ljóst að vúdú ógnaði nýlendukerfi þeirra, bönnuðu þeir alla iðkun afrískra trúabragða og refsuðu þeim, sem lögðu stund á vúdú, með fangelsun, hýðingum og dauða (hengingum). Þessi átök stóðu yfir í þrjár aldir, en engar refsingar dugðu til að bæla niður eða útrýma vúdú, sem voru stunduð áfram í laumi.

Um miðbik átakatímans hófst ráðabrugg meðal Afríkananna um byltinguna, sem varð síðar. Vúdúprestarnir fengu vitranir um, hvernig baráttan skyldi háð til að tryggja sigur. Byltingin hófst árið 1791 með „Petr-trúarathöfn” og stóð til 1804, þegar Haítíbúar fengu loks sjálfstæði.

Núverandi vúdúiðkun endurspeglar sögu sína. Nöfn hinna mismunandi trúarathafna sýna blönduna frá kynþáttunum og hið sama gildir um hinn mikla fjölda guða, sem eru upprunnir frá öllum hlutum Afríku.

NOKKRIR GUÐIR VÚDÚTRÚARINNAR

Eleggua ræður vegum og tækifærum. Hann annast milligöngu milli guða og manna. Honum er alltaf fyrst sýnd lotning við trúarathafnir, því að engu verður áorkað án samþykkis hans. Hann læknar líka öll mein og er töframeistari. Hann getur verið bæði mjög mildur og grimmur. Því er hann tengdur djöflinum í trúarbrögðum Kandómbla í Brasílíu. Samkvæmt jórúbasiðum er hann ekki illur guð, heldur er litið á brögð hans sem lexíur til að læra af. Í Santería verndar hann heimilin gegn hættum. Flestir Santerar hafa mynd hans nærri útidyrum húsa sinna. Þeir færa honum fórnir á hverjum mánudegi og þriðja dag hvers mánaðar. Vinsælustu fórnirnar eru kerti, sælgæti, leikföng, romm og vindlar.

Obatala er guð friðar, samræmis og hreinleika. Hann er faðir flestra annarra guða og skapari mannkynsins. Hann á og stjórnar heiminum. Hann stendur fyrir skírleika, réttlæti og vísdómi. Allt hvítt í heiminum er hans, snjórinn, himinninn, beinin og heilinn. Stundum kemur Obatala fram sem kona. Sumt fólk álítur hann tvíkynja, búa yfir styrkleika beggja kynjanna. Því er hann álitinn ráða bæði himni og jörð. Obatala er ákallaður, þegar veikindi ber að höndum og þegar leita þarf friðar og samræmingar.

Oloddumar. Samkvæmt hefð jórúba, Santería og Kandoma o.fl. eru þessi guð aðalskaparinn. Hann er ígildi Guðs í kristinni trú.

Oshun er gyðja ástar, fegurðar og stjórnkænsku. Hún ræður öllu fersku vatni. Með blíðu sinni leysir hún erfiðustu verkefni. Hún er verndari kviðsvæðis líkamans og kennir fólki að njóta unaðar og hamingju. Hún er mjög gjöful, en þegar hún reiðist, er mjög erfitt að róa hana. Hún er oft ákölluð til ráðgjafar og hjálpar í ástar- og fjármálum.

Oya er gyðja vindsins, eldsins og þrumufleygsins. Þar sem hún er kvenímynd stríðsmanns í guðatölu Jórúba, kemur hún fram sem fulltrúi kvennavaldsins. Hún er sterk, ákveðin, hugrökk og sjálfstæð og er ávallt tilbúin til að taka áhættu. Þegar hún reiðist, getur hún valdið fellibyljum og hvirfilvindum, en slíkt gerist líka, þegar hún veldur breytingum. Oya er mikil galdragyðja og gætir líka hliða heljar. Hún er einkum ákölluð, þegar mikil veikindi steðja að og þegar breytinga er þörf.

Yemalla er gyðja hafsins og tunglsins. Hún er ímynd móðurinnar og skapari auðæfa.. Hún er mjög gjafmild og ræður öllu lífi og nærir jörðina.. Hún er hin nærandi orka, sem sefar og huggar alla. Þegar hún reiðist, verður hún óbilgjörn eins og hafið. Því kemur hún fram sem hin ástríka móðir, en lætur völd sín ekki af hendi. Yemalla býr líka yfir vísdómi hins liðna og undirmeðvitundarinnar, því hún lumar á öllum leyndardómum hafsins. Konur ákalla hana oft í tengslum við frjósemi og önnur málefni kvenna.

Shango var fyrrum fjórði konungur Jórúba og var gerður ódauðlegur sem þrumuguðinn Shango. Hann er þekktur þjóðsagnaandi alls staðar meðal vúdúiðkenda í Ameríku. Stormar og eldingar Shangos virka sem ógnvekjandi, siðferðislegur hreinsivöndur. Guðinn laðar til sín marga fylgjendur svo sem sjá má á ölturum hans.


Aðalheimild:  Ferðarit Baedekers.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM